Komið þið sæl og góðan daginn.
Þegar ég var spurður hvort ég vildi flytja tölu hér á þessari ráðstefnu var mín fyrsta hugsun að að fara yfir þróun miðborgarinnar síðustu 10 árin og ræða á jákvæðan hátt um nýjar áherslur í skipulagsmálum. Eftir nokkra umhugsun ákvað ég hins vegar að ræða frekar, á nokkuð breiðum grunni, um það sem hefur farið aflaga í uppbyggingu miðborgarinnar á þessum tíma. Þetta verður því líklega ekki skemmtilestur en nú er tími að staldra við og tjá sig af hreinskilni.

Á síðasta áratug voru reistar byggingar sem breyttu yfirbragði Reykjavíkur um ókomna framtíðar. Án þess að Reykvíkingar gerðu sér í raun grein fyrir því var skrifað nýtt blað í byggingarsögu borgarinnar, nýr mælikvarði settur í borgarmyndina. Það var stórhugur í framkvæmaraðilum og í miðbænum fóru nokkur verkefni af stað og mörg önnur voru  í bígerð. Þegar hrunið kom stöðvaðist hins vegar uppbygging svo til alveg. Það er ekki söknuður af öllum þeim fyrirætlunum en eftir situr miðborgin hins vegar með sárt enni.
Mikil aukning hefur þó orðið undanfarin 10-15 ár í gistirými í miðborginni og státar Reykjavík nú af fjölbreyttu úrvali hóteli og gistihúsa. Hefur það þjónað vaxandi ferðamanniðnaði vel en visbendingar eru þó um offjáfestingu í greininni og vafasamt að fjölga gistirúmum meira enn orðið er í bili.

Það er augljóst að miðborg Reykjavíkur er í tilvistarkreppu. Almenn verslun og þjónusta þrífst illa í óhentugu húsnæði og verður að óbreyttu aldrei samkeppnisfær við verslunarmiðstöðvarnar.
Eina gróskan í verslun miðborgarinnar eru ódýrar ferðamannabúðir svokallaðar “Lundabúðir” sem fjölgar með farfuglunum á vorin en týna svo margar tölunni þegar haustar.

Það annað sem helst nær að dafna í miðborg Reykjavíkur eru auðvitað ölduhúsin. Töluverð endurnýjun er í gangi þar, enda ef til vill það sem Reykjavík er þekktust fyrir viða erlendis. Það er ekki alslæmt að Reykjavík sé vinsæl skemmtanaborg og menningaruppákomur eins og Airways og kvikmyndahátiðir njóta góðs af.  Hinsvegar hefur opnunartími öldurhúsa ásamt hrikalegri umgengni íslendinga á nætulífinu gert innsta hring miðbæjarinns í raun óíbúðarhæfann. Tölur sýna að fjölskyldufólk og eldri borgarar sækja ekki lengur í miðbæinn. Það er óheppileg þróun því þá hættir hann að vera miðborg allra landsmanna og verður einhverskonar “gamli bær”, ferðamanngildra með með öflugu næturlífi.

Flestallir eru sammála um að þétta þurfi byggð í miðbænum en á sama tíma eigi að vernda byggingararfinn. Þetta eru að sjálfsögðu andstæð sjónarmið milli húsaverndunar annars vegar og byggingariðnaðarins hins vegar sem ávallt reynir að hámarka stærðir og auka hagkvæmni.

Í raun er þetta þó nákvæmlega sama umræða og á sér  stað í öllum borgum hins vestræna heims. Þetta er vandrataður meðalvegur en er sú leið sem skipulagsyfirvöld á hverjum tíma þurfa að feta af varúð en festu.
Skipulagsvandi miðborgarinnar eru því í raun ekki hugmyndafræðilegur heldur snýst frekar um aðferðafræði og útfærslur. Finna sanngjarnar málamiðlanir milli ólíkra hagsmunaaðila, þar á meðal  almennings.

Það er að sjálfssögðu mjög mikilvægt að skipulagsvinna sé vönduð og hafa kynningar- og umræðufundir vegna endurskoðaðs aðalskipulags verið vísir að nýjum og markvissari vinnubrögðum. Mikilvægir áherslupuntar hafa verið kynntir, svo sem að skapa sérstaka borgarverndarstefnu ásamt stefnu um gæði og yfirbragð byggðar. Þetta eru viðfeðm stefnumörkun sem samt er gott að hafa inn í aðalskipulagi.
Um þessi atriði getur heldur enginn verið ósammála, en þó að þetta verði fært í letur í skipulagsgögnum mun það á engan hátt tryggja að framtíð Reykjavíkur verði bjartari á eftir. Þeir kraftar sem móta byggð Reykjavíkur og ákveða hvað er byggt og hvað ekki, hafa aldrei borið mikla virðingu fyrir skipulagsvinnu.

Það er mín sannfæring að þegar sú kerfisbreyting varð um árið 2000, að leggja Byggingarnefnd niður í þáverandi mynd, hafi viss fagmennska horfið frá Skipulagssviði Reykjavíkur. Þó að gamla byggingarnefndin hafi verið pólitískt skipuð þá voru þó yfirleitt í henni fagmenn sem hægt var að nálgast á faglegum forsendum. Skipulagsráð hefur síðustu 10 árin verið að langmestu leiti skipað kjörnum borgarfulltúum sem sjaldnast hafa menntun eða reynslu af byggingarmálum. Ég skrifa þá upplaun sem verið hefur í skipulagsmálum síðasta áratug að miklu leiti á minnkandi fagmennsku í skipulagsnefnd.

Öll gagnrýnin umræða, í íslensku þjóðfélagi, hefur verið markvisst bæld niður síðustu áratugi og þetta á ekki síst við um arkitektastéttina. Þvílíkur ótti býr í stéttinni að þrátt fyrir að starfsgrundvöllur hennar sé brostinn og atvinnuleysi líklega um 80 % þá heyrist varla í henni múkk.
Sjálfur hef ég fundið fyrir þessari þöggun bæði beint og óbeint. Þarf varla að útskýra hver völd skipulagsyfirvalda eru yfir starfi arkitekta, allt sem við gerum þarf samþykki yfirvalda. Það hefur því löngum þótt óráðlegt af arkitektum að gagnrýna skipulagsyfirvöld, en ég get ekki lengur orða bundist enda litlu að tapa úr því sem komið er.

Það er vitað að stöðugleiki í stjórnkerfi er ein forsendan þess að skipulagsmarkmið haldist. Því hefur ekki verið fyrir að fara hér. Upplausn í borgarstjórn síðasta áratuginn með tilheyrandi röð af nýjum borgarstjórum og skipulagsnefndum varð til þess að stjórnleysi varð raunin. Í skugga upplausnar og veikra meirihluta gengu hin nýju fasteignarfyrirtæki á lagið.  Uppbyggingin var þvílík að líklega er búið að byggja nóg fyrir næstu 6-8 ár. Nýbyggingar risu upp í loftið langt umfram samþykkt skipulög, án mikils tillits til nágrannabyggða eða þeirra grunngilda sem eiga að liggja að baki góðu skipulagi.
Það væri verðugt rannsóknarefni að skoða hvernig þetta gerðist, en ég leyfi mér að fullyrða að í nær öllum tilvikum voru það kjörnir fulltrúar sem gripu fram fyrir hendurnar á embættismönnum og gáfu grænt ljós á þá uppbyggingu sem fór úr böndunum. Það var hverjum manni ljóst að hin nýríku fjármálöfl höfðu tekið völdin í skipulagsmálum sem og flestu öðru í þjóðfélaginu. Borgaryfivöld gáfu eftir, fagleg umræða var þögguð niður, og hin ófaglega skipulagsnefnd tók ákvarðanir.

Það sýnir betur en margt annað þá vantrú sem Reykjavíkurborg hefur sjálf haft á eigin miðbæ að þróun síðustu 10 ára hefur verið sú að færa starfsemi borgarinnar út úr miðbænum, nýjar skrifstofubyggingar Orkuveitunnar voru byggðar í Árbænum, og flutt er árið 2007 í nyjar borgarskifstofur í Borgartúninu. Ekki skortir lóðirnar í miðbænum og þarna hefði borgin getað gefið fordæmi með opnum samkeppnum sem miðaði að því að færa meira lif í bæinn.
Siðustu árin hefur hins vegar orðið alger viðsnúningur í skipulagsáherslum, með aðstoð Torfusamtakanna hinna nýju sem manni virðist stundum hafa fengið völdin í skipulagi miðborgarinnar.
Það kemur eðlilega upp vantraust í þjóðfélaginu þegar uppbygging verður stjórnlaus, og eðlilegt að farið sé gagnrýnum augum yfir málin. Það sem hins vegar tók við voru öfgar í hina áttina og þjóðernisleg afturhaldssemi er ekki lausnin.

Það var fróðlegt að lenda í því að vinna fyrstu verðlaun í samkeppni um Listaháskóla Íslands fyrir einu og hálfu ári síðan. Þáverandi borgarstjóri lá ekki á skoðun sinni og strax eftir að úrslit samkeppninnar voru tilkynnt, lýsti hann því yfir í flestöllum fjölmiðlum að hann væri andsnúinn nýbyggingunni og vernda ætti 19. aldar götumynd Laugavegar. En eins og flestir vita þá stóð eitt og eitt hús á stangli við götuna á þeim tíma. Seinna tók hann sér svo tíma á borgarrstjórnarfundi í beinni útsendingu og réðst svo ósmekklega að starfsheiðri mínum að jafnvel reyndustu borgarstjórnarmönnum þótti nóg um. Allt vegna þess að stofan mín vann samkeppni.
Það er ekki að ástæðulausu að arkitektar kjósa yfirleitt að sitja hljóðir hjá þegar verk þeirra eru dæmd og léttvæg fundin af varðmönnum hins óbreytta ástands. Sú umræða einkennist yfirleitt af rangtúlkunum, sleggjudómum og útursnúningum, sem enginn kemst óskaddaður frá.
Torfusamtökin hin nýju skipuðu sérstakan sess í umræðunni um Listaháskólann, sökuðu okkur meðal annars um höfundaþjófnað og að hugmyndin væri stolin frá verkefni í Kaupmannahöfn. Það skipti þá litlu að samkeppninni hér heima væri lokið löngu áður en danska verkefnið leit dagsins ljós. Blaðagreinar sem þeir skrifuða um málefnið voru einnig fullar af meðvituðum rangfærslum og lýðskrumi. Greinilegt var að tilgangurinn helgaði meðalið og öll rökræn umræða var vonlaus.

Auðvitað á að halda í sem mest af okkar byggingararfleið en það er einfaldlega þannig að á öllum tímum eru byggð góð og slæm hús. Við eigum að halda í góðu húsin en hin eiga að víkja fyrir nýjum. Þannig byggjum við borg. Það á að vera metnaður allra að nýbyggingar í miðbæ Reykjavíkur séu vandaðar og verðugir fulltrúar samtímans. Byggingar sem henta vel fyrir þá starfsemi sem þær eru byggðar fyrir og og virða mælikvarða umhverfisins.
Hinsvegar, þegar stefnan er orðin sú að halda í allt gamalt og auk þess að byggja ný hús með útliti þeirra gömlu erum við komin á vafasama braut. Þætti okkur ekki fáranlegt að skikka skáldin til að yrkja í anda Fjölnismanna eða leyfa bara list í anda Sigurðar málara.
Uppgjöf borgarinnar gagnvart öfgafriðunum er greinileg í kaupum hennar á Laugaveg 2-4 og klisjukenndri uppbyggingu á horni Austurstrætis og Lækjargötu. Hvað á að vera í þessum húsum? Fleiri öldurhús og túristabúðir?

Á sama tíma seldi Reykjavíkurborg í hendur spákaupmanna einn helsta gimstein borgarinnar. Þá er ég að tala um Heilsuverndarstöðinina við Barónsstíg. Það er kaldhæðnislegt að það hús var, á sínum tíma, byggt af Reykjavíkurborg og hannað af Húsameistara Reykjavikur. Það meistarastikki er í núna í mikilli hættu og óafturkræft menningarslys í uppsiglingu.

Ég get ekki heldur leynt vonbrigðum mínum með nýskipaða húsafriðunarnefnd, það er greinilega lítill áhugi hjá menntamálaráðherra að koma miðbæ Reykjavikur út úr þeirri krísu stöðnunar sem hún er í. Sýnir hún þann sama hroka sem maður er orðinn vanur að finna hjá borgaryfirvöldum gagnvart fagmennsku og faglegum vinnubrögðum. Mun þetta hjálpa til við að slá öllum möguleikum um einhverja sátt um uppbyggingu miðborgarinnar í ófyrirsjáanlegan frest.

Mannvirkjahönnun á vegum Reykjavíkurborgar hefur ekki verið sett í opnar samkeppnir á þessari öld. Þeim er yfirleitt beinlínis úthlutað, eða í besta falli sett í lokaðar samkeppnir þar sem kjörnir fulltrúar geta ráðið því hverjir komast að. Erum við þá að tala um skóla, umferðarmannvirki, íþróttarmannvirki og fl. Þetta er enn eitt dæmi um það hvernig fagmennsku er ýtt til hliðar til að koma að öðrum hagsmunum. Það á að vera metnaður borgarinnar að setja öll verkefni í opnar samkeppnir. Stór sem smá.

Reykjavík þarf að sinna höfuðborgarhlutverki sínu betur og draga fjölbreyttari menningarstafsemi í miðbæinn. Starfsemi sem myndi þjóna fjölskyldum jafnt sem ferðamönnum. T.d. væri það verðugt verkefni hjá Reykjavíkurborg að skipuleggja safnasvæði. Bjóða mætti Menningarsöfnum þjóðarinnar aðstöðu í miðborg Reykjavíkur. Nefna má að Hönnunarsafn Íslands, Kvikmyndasafn Íslands og Tónlistarsafn Íslands eru öll staðsett í nágrannasveitarfélögum þar sem þau eru lítið sótt og í litlum tengslum við þær starfstéttir sem þær kynna.
Þar mætti einnig koma fyrir Náttúruminjasafni Ísland, sem ætti að vera okkar mikilvægasta safn. Það á að fá verðugan sess í borgarmyndinni.

Ég á ekki von á að ég hafi aflað mér mikilla vinsælda eftir þessa tölu svo ég ætla að koma að uppbyggilegri hugmynd í lokin. Það kallar á vissa hugarfarsbreytingu en gæti skipt sköpum fyrir uppbyggingu miðborgarinnar.

Það þarf breyta áherslum og hverfa frá reitaskilgreiningum í skipulagsvinnu. Lifandi borgarmynstur er flókið samband tenginga og áfangastaða. Miðborgin er almenningsrými sem þarf að kortleggja og skilgreina. Með meiri áherslu á götur, torg og opin almenningssvæði.

Vinna þarf fjölþætta rannsókn á starfsemi og mannlífi miðborgarinnar og fá þannig grunn til að taka marvissar ákvarðanir um uppbyggingu. Hvað virkar í dag og hvað ekki? Hvaða breytingar eru að gerast í borginni og af hverju? Hvaða starfsemi saknar fólk úr miðbænum?
Þessar upplýsingar eru forsenda fyrir árangursríkri samþættingu byggðar í miðborginni. Síðan þarf að laða markvisst og meðvitað að fjölbreyttari starfsemi, þannig að allir hafi eitthvað þangað að sækja.

Að lokum vil ég stinga upp á því að fundin verði salur í miðborginni þar sem komið verði varanlega fyrir stóru módeli af miðborgarsvæðinu. Þar væri hægt að kynna fyrir almenningi þær rannsóknir og verkefni sem eru í vinnslu á hverju sinni. Merkja inn á módelið þannig að yfirsýn náist. Allir geta komið með athugasemdir og samræða getur myndast milli ólíkra hagsmunaaðila.
Forsenda fyrir samstöðu um framtíð miðborgarinnar er markviss og fagleg upplýsingamiðlun til borgaranna.

Takk fyrir