Eru ekki allir spenntir að gleyma kostnaðarrammanum og byggingareglugerðinni í smá stund? Arkitektafélag Íslands fer í annað sinn af stað með piparkökuhúsakeppni fyrir félagsmenn. Þetta er kjörið tækifæri fyrir arkitekta og arkitektastofur landsins til að taka sér smá frí frá erli dagsins, eiga huggulegan dag saman og gefa sköpunarkraftinum lausan tauminn. Glæsilegir vinningar í boði!

Afrakstur vinnunnar verður síðan til sýnis á Kjarvalsstöðum í einu viku. Í fyrra voru margir sem sóttu sýninguna á Kjarvalsstöðum en hún fékk gríðarlega mikla umfjöllun í fjölmiðlum. Meðal annars á RÚV, Stöð 2, á Hringbraut, Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og DV. Þetta er því einnig kjörið tækifæri fyrir arkitektastofur landsins að kynna sig fyrir almenningi á skemmtilegan hátt.

Sýningin á húsunum verður opnuð með pompi og pragt og myndum af húsunum verður dreift víða og fá eflaust mikið pláss á samfélagsmiðlum.

Tímarammi:

  • 6. nóvember-keppnin kynnt til leiks
  • 30. nóvember – skilafrestur kl. 12.00. Húsum skilað á Kjarvalsstaði
  • 30. nóvember – 7. desember-Húsin til sýnis á Kjarvalsstöðum í Reykjavík
  • 7. desember-Rýnifundur og verðlaunaafhending kl. 15.00

Samkeppnislýsing:

Samkeppnin er opin öllum arkitektum í Arkitektafélagi Íslands. Einstaklingar sem og teymi og/eða stofur geta tekið þátt. Húsið sem byggt er þarf að vera höfundarverk þátttakenda. Það má vera frumhönnun fyrir keppnina og gert eftir teikningu eða húsi sem arkitektinn/stofna hefur þegar látið byggja. Húsið þarf þó fyrst og fremst að vera glæsilegt og gómsætt!

Skilagögn:

  • Piparkökuhús

Skráið ykkur í keppnina með því að senda póst á gerdur@ai.is

#arkipiparkökur verður notað og hvetjum við arkitekta til þess að deila myndum á samfélagsmiðla og einnig til þess að fylgjast grannt með keppinautum.

Við þökkum Listasafni Reykjavíkur kærlega fyrir að hleypa okkur inn á Kjarvalsstaði með þessa skemmtilegu sýningu.