Opið bréf til félags- OG TRYGGINGAmálaráðherra –

BRÁÐABIRGÐAÁKVÆÐI
Fyrir rúmu ári voru sett bráðabirgðaákvæði við lög um atvinnuleysistryggingar, vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði VI 2.mgr. var sjálfstætt starfandi einstaklingum gert kleift að sækja um bætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði án þess að hætta rekstri.
En nú hefur Alþingi endurskoðað lögin og látið þessa mikilvægu réttarbót fyrir einyrkja falla út. Hvað hefur breyst í sérstökum aðstæðum á vinnumarkaði á nýliðnu ári, sem réttlætir niðurfellingu ákvæðisins? Ef eitthvað hafa aðstæðurnar versnað! Einyrkjum er með tryggingagjaldi gert að greiða sama hlutfall af tekjum sínum og aðrir launþegar í Atvinnuleysistryggingasjóð og ættu að  eiga sama rétt á bótum! Þeir njóta hins vegar í raun ekki lengur verndar laga um atvinnuleysistryggingar!
EINYRKJAR
Lögin eru frá upphafi eins og sniðin til þess að gera sem minnst úr rétti og sjálfsvirðingu einyrkja. Jafnvel bráðabirgðaákvæðin gera einyrkjum lægra undir höfði en launþegum.  Einyrkjar eru í raun launþegar hjá sjálfum sér og fengu skv. ákv. VI sambærilegan rétt og launþegar í hlutastarfi hjá öðrum, fyrir utan að frítekjumark þeirra var um 70% lægra en annarra launþega!  Í ákvæði VI 2.mgr. translate . sem snýr að einyrkjum, segir: „..skal .. miða frítekjumark að fjárhæð 100.000 kr. á mánuði við útreikning á frádrætti vegna tekna sjálfstætt starfandi einstaklings.“  en ákv. V 3.mgr. á við launþega: „..skulu laun frá atvinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall og atvinnuleysisbætur samanlagt…aldrei nema hærri fjárhæð en 491.318 kr. á mánuði“.
Margir einyrkjar selja sérhæfða þjónustu og hafa mjög breytilegar tekjur. Þegar einyrki hefur upplifað langvarandi samdrátt og vill leita réttar síns til bóta þarf hann samkvæmt lögunum að uppfylla mörg skilyrði. Í fyrsta lagi þarf hann að leggja niður starfsemi og afsala sér áunnum réttindum á meðan hann þiggur bætur.
En hann fær ekki sjálfkrafa fullar bætur sbr. 19.gr. 1.mgr. „Sjálfstætt starfandi einstaklingur … telst að fullu tryggður … eftir að hafa greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein.“  Viðmiðunarfjárhæðina ákveður fjármálaráðherra (að fengnu áliti ríkisskattstjóra) og gefur út sem eðlilegar tekjur vegna viðkomandi reksturs. Það er reyndar spurning hvernig opinber aðili getur ákveðið tekjuviðmið fyrir starfsgreinar sem ekki hafa heimild til samráðs eða að setja sér taxta (sbr. samkeppnislög)! Tekjuviðmið ráðherra er mjög hátt m.v. samdráttartíma sem þessa. Það þýðir að einyrki sem hefur verið að þrjóskast við að viðurkenna sig atvinnulausan, hefur verulega lægri meðaltekjur en sem því nemur. Hann fær því ekki nema hluta af bótum sem auk þess eru ekki miðaðar við viðmiðunartekjur hans, sbr. í 19.gr. 2.mgr. „..þá ákvarðast tryggingarhlutfall hans af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið af og viðmiðunarfjárhæðar..“.
Það þarf ekki neinn stærðfræðisnilling til að sjá að útkoman úr þessum reikningi er ekki upp á marga fiska fyrir þann sem hefur lengi búið við samdrátt í rekstri!
SÉRSTAÐA ARKITEKTA
Arkitektar eiga flestir a.m.k. 5 ára nám að baki og  allnokkra vinnureynslu hjá öðrum, áður en þeir öðlast full réttindi hér á landi. Þessi réttindi og ábirgðin sem þeim fylgir eru bundin við þá sem einstaklinga og að hætta starfsemi er í raun að afsala sér margra ára námi (en sitja uppi með námslánin).
Þeir sem neyðast nú til að láta af starfssemi eru útilokaðir frá eigin fagi. Með því glatast ákveðin reynsla og frekari verkefni safnast á fárra hendur. Hinir stóru verða „stærri“ en margir hinna „minni“ munu tínast úr faginu, arkitektar sem ella gætu þreytt þorrann og góuna og tekið fullan þátt í uppbyggingu nýs samfélags þegar að henni kemur.
Þegar einkahlutafélagaformið var lögleitt skráðu margir reksturinn sem „ehf“. Þetta form býður upp á margs konar skattahagræðingu (lesist: skattalækkun) þar sem tekjuskattur á hagnað fyrirtækja er lægri en á einstaklinga. Nú virðist löggjafinn nánast vera að neyða einyrkja til að flýja í slíkt skattaskjól vilji þeir tryggja rétt sinn til atvinnuleysisbóta. Það er auðveldara að láta lýsa hlutafélag gjaldþrota en einstakling. En gjaldþrot þýðir oftast vanefndir svo sem vangreidd laun og/eða launatengd  gjöld og leiðir af sér kennitöluflakk. Skilar það ríkissjóði meiri tekjum? Lögin eins og þau eru, og voru upphaflega samin, mismuna mönnum eftir því hvernig þeir skilgreina rekstur sinn. Þau tryggja hvorki jafnrétti né réttlæti í úthlutun atvinnuleysisbóta, né sýna þau ákveðnum starfsstéttum fulla virðingu, þótt eflaust hafi verið reynt að standa heiðarlega að gerð þeirra, svo vitnað sé í mikilvægustu gildin að mati Þjóðfundarins 2009! Lögin eins og þau eru setja einyrkjum tvo afarkosti: Að þiggja strípaðar/skertar bætur eða „éta það sem úti frýs“, þ.e. taka þá áhættu að svelta ef uppsveiflan lætur bíða eftir sér.

Grein send 8.jan.2010 – til birtingar í Morgunblaðinu
Virðingarfyllst Árni Þorvaldur Jónsson
arkitekt faí og eignaskiptalýsandi
(með leyfi til að gera eignaskiptayfirlýsingar)