Saga

Saga Arkitektafélags Íslands

Fyrsta fagfélag þeirra sem sinntu byggingarlist hér á landi, Byggingameistarafélag Íslands, var stofnað í Reykjavík árið 1926. Megintilgangur félagsins var sá sami og kemur fram í gildandi lögum Arkitektafélags Íslands: að stuðla að góðri byggingarlist í landinu, efla samvinnu félagsmanna og standa vörð um hagsmuni þeirra. Í félagið gengu nokkrir arkitektar, nýkomnir frá námi.

Árið 1936 var hið Akademíska arkitektafélag stofnað og voru félagsmenn þeir sem útskrifast höfðu frá fullgildum arkitektaskólum. Helsta baráttumál félagsins var að fá stjórnvöld til þess að veita einungis fullmenntuðum arkitektum réttindi til að bera starfsheitið húsameistari/arkitekt og að leggja aðaluppdrætti fyrir byggingarnefndir. Þessu fékk félagið þó ekki framgengt við íslensk stjórnvöld, en sætti sig við þá lausn að þeir sem starfað höfðu við húsateikningar og byggingarstörf að aðalstarfi síðustu sex árin skyldu fá leyfi stjórnvalda til þess að bera starfsheitið húsameistari fyrir gildistöku laga nr. 24 frá 13. júní 1937.

Ákveðið var árið 1939 að veita þeim mönnum sem stjórnvöld veittu réttindi til að kalla sig húsameistari en ekki höfðu lokið akademísku námi, aðild að Arkitektafélaginu og var nafni félagsins jafnframt breytt í Húsameistarafélag Íslands og lögum þess þannig að allir þeir sem uppfylltu skilyrði laga um húsameistaratitilinn gætu orðið félagar í Húsameistarafélaginu. Gamla fagfélag byggingameistara var sama ár lagt niður, enda ekki talin ástæða til að hafa tvö fagfélög starfandi í svo litlu þjóðfélagi.

Nokkur ágreiningur reyndist lengstaf vera meðal félagsmanna um starfstitilinn, og töldu ýmsir ekki rétt að gefa til kynna að starfið takmarkaðist við húsbyggingar. Á aukaaðalfundi í Húsmeistarafélagi Íslands árið 1956 var samþykkt tillaga um að breyta nafni þess í Arkitektafélag Íslands.