Screen Shot 2016-02-15 at 08.29.43

Hér birtast svör dómnefndar við þeim fyrirspurnum sem borist hafa í samkeppni um rammaskipulag Lyngássvæðis í Garðabæ.


1.   
Í keppnislýsingu, kafla 2.3 um Aðalskipulag kemur fram að í núgildandi aðalskipulagi sé sett fram sú stefna að Hafnarfjarðarvegur skuli lagður í stokk milli Vífilsstaðarvegar og Lyngáss.  Fyrirspurn: Er þetta forsenda í samkeppninni eða ekki?
Svar: Lausn á skipulagi umhverfis Hafnarfjarðarveg og gatnamót hans við Vífilsstaðaveg má ekki úttiloka að í framtíðinni verði hægt að gera mislæg gatnamót og stokk milli Vífilsstaðavegar og Lyngáss. Það þarf því að vera nægjanlegt rými til staðar fyrir þá lausn. Æskilegast er að lausnin haldi báðum möguleikum opnum.

2.    Í 3. kafla, Áherslur dómnefndar koma m.a. fram áhersluatriði um nýja sýn á búsetuform sem miði að þörfum ungra fjölskyldna, lægra íbúðarverði, spennandi grænum almenningsrýmum, vistvænum og hagkvæmum samgöngumátum, hagkvæmum bílastæðalausnum og viðmiðum um 1,5 stæðum á íbúð.
Fyrirspurn a: M.t.t. með nálægðar skipulagssvæðisins við almenningssamgöngur, miðbæ, skóla og aðra þjónustu má halda því fram að viðmið um 1,5 stæði á íbúð sé nokkuð hátt. Jafnvel að það sé í ákveðinni mótsögn við áður taldar áherslur á vistvæna og hagkvæma samgöngumáta (þ.m.t. áætlun um Borgarlínu) og lægra íbúðarverð. Hver eru helstu rök fyrir þessum viðmiðum um bílastæðafjölda?
Svar: Í deiliskipulagsáætlunum í Garðabæ hefur þess jafnan verið gætt að nægjanlegt framboð sé af bílastæðum, jafnvel í þéttri byggð eins og í Urriðaholti. Heildarkrafa bílastæða er á bilinu 1,5 til 3 stæði á íbúð og fer það eftir stærð þeirra og gerð. Tillaga að rammaskipulagi þarf að taka tillit til þess að Garðabær hefur gert meiri kröfur en nú tíðkast t.d. miðsvæðis í Reykjavík.  Á svæðinu sem rammaskipulagið nær til þarf að gera ráð fyrir 1,5 stæði á íbúð og eru þar meðtalin gestastæði sem geta þá verið utan lóða.

3.    Fyrirspurn b: Fram kemur að horft verði til hagkvæmra bílastæðalausna. Þýðir það að ekki skuli gert ráð fyrir bílakjallara undir byggð eða öðrum lausnum sem gefa möguleika á forgang grænna svæða fram yfir opin bílastæði?
Svar: Æskilegast er að blandaðar leiðir verði farnar í útfærslu bílastæða sem m.a. geta verið bílakjallarar, yfirborðsstæði eða hálfniðurgrafin stæði. En um leið er lögð áhersla á búsetuvænt yfirbragð með grænum og skjólgóðum útirýmum.

4.    Er til yfirlitskort yfir eignir á lóðum og mannvirkjum á svæðinu sem hægt er að dreifa til þátttakenda?
Svar: Ekki umfram þau gögn sem keppendur hafa aðgang að í gegnum verkefnisvef. Bent er á kortavef Garðabæjar sem er aðgengilegur á heimasíðu.

5.    Er gert ráð fyrir að allar byggingar skuli víkja á samkeppnissvæðinu, eða er það valmöguleiki þátttakenda að endurnýja byggingar, telji þeir það vera fýsilegan kost?
Svar: Það er hluti að úrlausnarefni og valmöguleiki keppenda að meta hvort nauðsynlegt verði að fjarlægja allar byggingar til að ná fram þeim markmiðum sem sett eru fram í keppnislýsingu.

6.    Hefur bæjarfélagið myndað sêr skoðun um ákjósanlega áfangaskiptingu? Er eitt svæði betur tilfallið en annað til að hefja framkvæmdir?
Svar: Eins og málum er háttað þá er sennilegast að uppbygging hefjist á svæðinu ofan Lyngáss, síðan neðan Lyngáss og síðast umhverfis Hafnarfjarðarveg.

7.    Hefur verið gerð úttekt á húsakosti, er til yfirlitskort yfir hús sem hafa sėrstakt varðveiðslugildi, sögulegar minjar o.þ.h?
Svar: Ekki hefur verið unnin húsakönnun  á svæðinu en það verður gert í tegslum við deiliskipulagsgerð eins og lög gera ráð fyrir. Ekki er gert ráð fyrir því að hús á svæðinu hafi hátt varðveislugildi.

8.    Eru áherslur í Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins sem ber sėrstaklega að hafa í huga við gerð rammaskipulagsins?
Svar: Í samkeppnislýsingu í kafla 2.3 er vitnað beint í vísa í umfjöllun svæðisskipulags um samgöngur og samgöngukerfi þar sem m.a. fjallað er um borgalínu. Þar sem að borgarlína mun liggja um svæðið sem rammaskipulag nær til skapast möguleikar sem hingað til hafa ekki verið til staðar. Æskilegt er að keppendur horfi til þeirra tækifæra við mótun tillagna.

9.    Hefur bæjarfélagið myndað sér skoðun um þéttleika byggðar á svæðinu, hafa verið skilgreind mörk fyrir lágmark og/eða hámark á byggingarmagni?
 Svar:  Það er úrlausnarefni keppenda að koma með tillögur sem falla að markmiðum kepnninnar. Hvorki er skilgreint hámark eða lágmark þéttleika en í áherslum dómnefndar kemur fram að tillit skuli taka til aðliggjandi byggðar hvað varðar umferðarflæði, göngu-og hjólastíga, útsýni, innsýn og skuggavarp.  Stefna um hæð bygginga er mörkuð í grein 2.2. í greinargerð aðalskipulags Garðabæjar 2004-2016 en þar segir:  „Þar sem gert er ráð fyrir þéttri nýrri byggð verður þéttleika náð með blöndun fjölbreyttra húsagerða í hóflegri hæð en ekki með háhúsaþyrfingum eða einhæfri uppröðun húsa“. Umrætt ákvæði er enn í gildi og ekki stefnir í að frá þessari stefnumörkun verði vikið við endurskoðun aðalskipulags sem nú er í vinnslu. Við mat á tillögum verður horft til gæða byggðarinnar fremur en þéttleika.

10.  Hvaða starfsemi önnur en íbúðir er æskileg, möguleg, ákjósanleg á svæðinu?
Svar: Í ofangreindum kafla aðalskipulagsgreinargerðar segir: „Hlutfall og tegund atvinnustarfsemi í blönduðum hverfum verður ákvarðað í ramma- og/eða deiliskipulagi. Um getur verið að ræða grunnskóla, leikskóla, verslun, heilbrigðisstofnanir, ýmsa hverfistengda þjónustu, skrifstofur, léttan iðnað og önnur atvinnutækifæri sem ekki hafa neikvæð áhrif á íbúðabyggð með hávaða, lykt, óþrifnaði eða mikilli umferð.“  Umrætt ákvæði er enn í gildi og ekki stefnir í að frá þessari stefnumörkun verði vikið við endurskoðun aðalskipulags sem nú er í vinnslu. Ekki stendur þó til að staðsetja nýjan grunnskóla inni á því svæði sem rammaskipulagið nær til.

11. Hvaða aðili / aðilar munu koma til með þróa og byggja íbúðir á svæðinu? Mun bæjarfélagið fara í slíkar framkvæmdir eða verða gerðir samningar við húsnæðisfélög / byggingarfélög?
Svar: Engar ákvarðanir liggja fyrir um fyrirkomulag uppbyggingar.

12. Er gert ráð fyrir leiguíbúðum, kaupíbúðum, eða hvoru tveggja, og ef svo er í hvaða hlutfalli?
Svar: Engar ákvarðanir liggja fyrir um það en ljóst er að ef árangur á að nást í því meginmarkmiði rammaskipulags að stefna að byggð fyrir ungt fjölskyldufólk verður um blandaðar leiðir að ræða.

13. Nýting. Hversu mikið byggingarmagn er áætlað að bæta eigi við?
Svar: sjá svar við spurningu númer 9.

14. Notkun. Hve stór hluti/hlutfall af byggingarmagni á að vera fyrir íbúðir, verslun eða þjónustu?
Svar: Markmið bæjarstjórnar er íbúðarbyggð sem hentar ungu fjölskyldu fólki í hæfilegri blöndun við verslun, þjónustu og skrifstofubyggingar. Hluti úrlausnarinnar er að leggja til hæfilega blöndu og ekki er fyrirfram ákveðið hvert hlutfallið verður. Fyrst og fremst verður þó um íbúðarbyggð að ræða.

15. Á að gera ráð fyrir atvinnuhúsnæði/iðnaðarhúsnæði á reitnum?
Svar: Sjá svar við spurningu númer 10.

16. Íbúðargerðir. Hvaða stærð að húsnæði er verið að leitast eftir, m.t.t. m2 eða herbergjafjölda og í hvaða hlutföllum eiga þessar húsnæðisgerðir að vera?
Svar: Ekki er skilgreint sérstaklega hvaða stærðum sé verið að leita eftir en miða skal við þarfir ungra kaupenda. Lögð er áhersla á fjölbreytta valkosti, ólíka nálgun og ferska sýn á viðfangsefnið.

17. Samgöngur. Skv. aðalskipulagi er bæði gert ráð fyrir mislægum gatnamótum og Hafnarfjarðarvegi í stokki, er gert ráð fyrir breytingu á þessu fyrirkomulagi?
Svar: Sjá svar við spurningu númer 1.

18. Bílastæði. Kröfur um 1,5 bílastæði á íbúð vinna að einhverju leiti á móti áherslum dómnefndar um að markmið rammaskipulagsins verði að stuðla að lægra íbúðaverði fyrir unga kaupendur og leigjendur. Hvort vegur þyngra kröfur um bílastæðafjölda eða lægra íbúðaverð?
Svar: Sjá svar við spurningu númer 2.

Lyngás, fyrrispurnir og svör