Fjölmargir fasteignaeigendur og framkvæmdaaðilar hér á landi hafa áhuga og metnað til þess að notast við vistvæn byggingarefni við viðhald bygginga og nýframkvæmdir, en eru ekki endilega vissir um við hvað eigi að miða þegar byggingarefni er valið eða hvernig best sé að tilgreina vistvænt byggingarefni í hverju verkefni fyrir sig. Vistbyggðarráðin í Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og Íslandi hafa nú lokið vinnu við gerð viðmiðunarreglna um það hvernig hægt er að tilgreina vistvæn byggingarefni fyrir innkaup. Þetta eru jafnframt gagnlegar leiðbeiningar fyrir framleiðendur um það hvernig þeir geta skilgreint og merkt vörur sem fluttar eru á milli Norðurlandanna.

Það er von þeirra sem að verkefnu standa að þessi viðmið fyrir vistvæn byggingarefni muni auka eftirspurn eftir vistvænu byggingarefni á Norðurlöndunum og um leið að þau geti einfaldað innkaupaferli og gert bæði framleiðendum og fasteignaeigendum það auðveldara að nota vistvæn byggingarefni sem hafa minni umhverfisáhrif heldur en hefðbundin efni og uppfylla alþjóðlegar reglur og staðla um umhverfisáhrif.

Viðmiðin eru sett fram í þremur mismunandi stigum og er hægt að velja stig allt eftir metnaði í umhverfisáherslum eða kröfum hvers verkefnis en ekki síst er þessi sveiganleiki tryggður þar sem aðstæður geta verið mismunandi. Húseigandinn þarf í upphafi að velja sér stig sem hann vill vinna með og nota sem forskrift í innkaupum á byggingarefnum.

Þessar viðmiðunarreglur geta allt eins hentað við nýjar framkvæmdir sem og endurbætur eldri bygginga eða við almennt viðhald. Þessar viðmiðunarreglur eru í raun aðeins einn hluti heildarafurðar úr stóru norrænu samstarfsverkefni sem hefur staðið yfir síðastliðin tvö ár og var fjármagnað af norræna Nýsköpunarsjóðnum. Einnig hafa verið unnar gagnlega skýrslur og frekari leiðbeiningar um notkun vistvænna byggingarefna, gerðar úttektir á almennri þekkingu og notkun EPD í löndunum og unnið kynningarefni m.a. um umhverfisyfirlýsingar byggingavöru eða svokölluð EPD blöð. Hægt er að kynna sér verkefnið betur og sækja umrædd gögn á vefsíðu Vistbyggðarráðs

 

Vistbyggðarráð