Skipulagsdegurinn verður haldinn 15. september næstkomandi milli kl. 9-16. Ráðstefnan fer fram í Gamla bíói. Dagskráin tekur að þessu sinni mið af tveimur af fjórum viðfangsefnum Landsskipulagsstefnu 2015-2026, eða skipulagi miðhálendisins og skipulagi borgar og bæja. 

Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar er Mauricio Duarte Pereira sem starfar hjá borgarhönnunar- og skipulagsstofunni Gehl, sem kennd er við stofnanda hennar Jan Gehl.  Í erindi sínu mun hann miðla af reynslu stofunnar sem hefur unnið víða um heim að nýskipulagi og endurhönnun borgarsvæða og er sérstaklega þekkt fyrir vinnu með rýmið á milli húsanna með fólk í fyrirrúmi.

Fyrri hluti ráðstefnunnar verður helgaður skipulagsmálum á miðhálendinu. Farið verður yfir verkefni sem unnið er að við framfylgd landsskipulagsstefnu sem varða mannvirki á hálendinu, víðerni og vegamál. Þá verður rætt um  hugmyndir um stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Síðast en ekki síst verða kynnt nokkur skipulags- og hönnunarverkefni á hálendinu.

Í síðari hluta dagskrárinnar verður sjónum beint að skipulagi borgar og bæja og hvernig við getum beitt skipulagsgerð til að auka gæði hins byggða umhverfis. Þar mun aðalfyrirlesari ráðstefnunnar stíga á svið en jafnframt verður fjallað um skipulagsáherslur við uppbyggingu þróunarsvæða meðfram fyrirhugaðri Borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu. Þá verða einnig kynnt nokkur áhugaverð skipulags- og hönnunarverkefni frá ólíkum stöðum um landið  sem fela í sér styrkingu viðkomandi þéttbýlis með áherslu á lífsgæði og sjálfbærni.

Dagskránni lýkur með hugleiðingum Huldu Þórisdóttur dósents um skipulagsgerð fyrir lífsgæði og sjálfbærni séð frá sjónarhóli sálfræðinnar.

Skráning fer fram hér

Verð er 6.000 kr. (Við viljum hvetja félagsmenn að skoða hjá sínu stéttarfélagi hvort ráðstefnan sé styrkhæf).

Innifalið er kaffiveitingar og hádegisverður.