Skipulagsdagurinn verður haldinn 8. nóvember næstkomandi með metnaðarfullri og spennandi dagskrá. Yfirskrift dagsins að þessu sinni er Skipulag um framtíðina, samspil skipulags við áætlanagerð um byggð, samgöngur og nýtingu lands.

Með skipulagi er mótuð umgjörð um daglegt líf okkar til langrar framtíðar. Skipulag er eitt af helstu stjórntækjum stjórnvalda til að vinna að aðgerðum í loftslagsmálum – til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka bindingu og bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga. Um leið er mikilvægt að önnur áætlanagerð um byggð, samgöngur og nýtingu lands, eins og gerð húsnæðis- og samgönguáætlana, sé tvinnuð inn í og taki mið af skipulagi bæja og landsvæða.

Á Skipulagsdeginum í ár beinum við  sjónum að gerð aðalskipulags sveitarfélaga. Fjallað verður um hvernig virkja má aðalskipulag sem best sem stefnumótunar- og stjórntæki um þróun byggðar til framtíðar. Rætt verður um samspil skipulags við gerð húsnæðisáætlana og áætlana í samgöngumálum, meðal annars með tilliti til vinnusóknarsvæða. Einnig um samspil skipulags við áætlanir um ferðaþjónustu og stefnu um framfylgd heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Jafnframt verður sagt frá vinnu við mótun landsskipulagsstefnu um loftslag, landslag og lýðheilsu og kynnt innleiðing og ávinningur stafrænnar skipulagsgerðar.

Dagskráin hefst með ávarpi ráðherra skipulagsmála, Guðmundar Inga Guðbrandssonar, en í kjölfar þess slær rithöfundurinn Andri Snær Magnason tóninn fyrir daginn með hugvekju um veruleika og viðfangsefni skipulagsgerðar á tímum loftslagsbreytinga. Síðan taka til máls forstjóri Skipulagsstofnunar, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og fulltrúar sveitarstjórna víða um land auk annarra sem hafa fram að færa forvitnilega sýn og þekkingu um skipulagsmál í ólíku samhengi. Í lok dagskrár verða panelumræður með spurningum úr sal. Fundarstjóri er Sigmar Guðmundsson, fjölmiðlamaður.

 Skráning og dagskrá er á vef Skipulagsstofnunar.

Þátttökugjald er 6.000 kr. og er innifalið hádegisverður og kaffiveitingar. Námsmenn greiða hálft gjald.

Húsið opnað kl. 8.15 og eru gestir hvattir til að mæta tímanlega.