Óhætt er að segja að ráðstefna Vistbyggðarráðs og Vistmenntar sem fór fram í Norræna húsinu þann 12. maí s.l. hafi heppnast vel, en þetta er fyrsta ráðstefnan sem Vistbyggðarráð stendur fyrir hér  á landi. Ætlunin er að standa fyrir einni sambærilegri ráðstefnu að ári. Í þetta sinn var hún samstarfsverkefni VBR og Vistmenntarverkefnisins, enda snertifletir margir á sambandi við fræðslu um vistvænar leiðir í mannvirkjagerð. 

Fluttir voru áhugaverðir fyrirlestrar þar sem fjallað var um einstök verkefni og áherslur. Einnig var  horft til framtíðar og vildi Martin Haas arkitekt frá þýskalandi tala um Ecological revolution í þessu sambandi. Mikael Kogh frá Danmörku lagði áherslu á félagslega ábyrgð, tækniframþróun og vistvæn viðmið verði hluti af almennum viðmiðum í mannvirkjagerð. Einnig var komið inn á mikilvægi fræðslu á öllum stigum, bæði til almennara notenda, kaupenda, framleiðanda, hönnuða og framkvæmdaðila. Til þess að vekja athygli þeirra sem hafa ekki hingað til verið að huga að vistvænum lausnum þá er mikilvægt að benda á fjárhagslega hagkvæmni til lengri tíma og setja fram staðreyndir sem tala sínum máli, eins og Dennis Carlberg frá Boston University gerði í sínu erindi

Í lok ráðstefnunnar kynntu hópstjórar vinnuhópa Vistbyggðarráðs það sem verið er að vinna að í hópunum og var greinilegt að það er margt til umræðu og skoðunar enda búa vinnuhóparnir yfir miklum mannauði, reynslu og þekkingu þeirra sem þar sitja. Samkvæmt samkomulagi aðstandenda Vistmenntarverkefnisins og Vistbyggðarráðs er Vistmenntarverkefnið staðgengill sérstaks vinnuhóps um menntun í þágu vistvænni byggðar og gerði verkefnistjóri Vistmenntar grein fyrir stöðu mála í verkefninu og því sem framundan er.
F.h. Vistmenntarverkefnisins vil þakka öllum þeim sem komu að undirbúningi ráðstefnunnar á einn eða annan hátt fyrir þeirra framlag og öllum þeim sem að tóku þátt í þessari velheppnuðu ráðstefnu og öðrum viðburðum henni tengdri fyrir þátttökuna.
Kristín Þorleifsdóttir
Hægt er að skoða fyrirlestrana, undir STARFSEMI – Ráðstefnur- Ráðstefna VBR maí 2011