AÍ hefur borist svarbréf frá umboðsmanni Alþingis (UA) vegna svokallaðs löggildingarmáls sem AÍ hefur leitast við að fá svar við í þónokkurn tíma. Forsaga málsins er sú að á vef Mannvirkjastofnunar birtust eingöngu nöfn arkitekta sem fengu löggildingu eftir gildistöku byggingarlaga nr. 54/1978. Það þýðir að allir þeir sem arkitektar sem fengu löggildingu fyrir gildistöku laganna voru ekki á lista Mannvirkjastofnunar sem löggiltir arkitektar. AÍ sendi póst 6. júní 2016 til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og vildi fá þetta leiðrétt. Beiðni félagsins um leiðréttingu var hafnað af ráðuneytinu með bréfi 4. október 2016. Í kjölfarið var tekin sú ákvörðun að beina kvörtun AÍ vegna málsins til umboðsmanns Alþingis. Það var gert með bréfi sem var sent 17. mars 2017 sem AÍ hefur nú fengið svar við.

Hér er stutt samantekt á svari umboðsmanns Alþingis sem Tryggvi Tryggvason formaður laganefndar AÍ tók saman.

Kvörtun AÍ til UA byggir á ályktun sem var samþykkt samhljóða á aðalfundi Arkitektafélags Íslands þ. 26. febrúar 2015, og stjórn AÍ var falið að fylgja eftir, sbr.: „Hvort réttlætanlegt sé að svipta arkitekta löggildingu starfsheitis með því að taka þá, sem slíka löggildingu fengu fyrir ákveðinn tíma, af lista þeim, sem Mannvirkjastofnun birtir yfir löggilta hönnuði?“

Svarbréf UA dags. 28. febrúar s.l. ber að túlka með hliðsjón af lögum um umboðsmann Alþingis nr. 85/1997, þ.m.t. hlutverk UA sbr. 2. gr. og starfssvið UB sbr. 3. gr. laganna.

Heimildir UA til að ljúka málum eru skv. 10. gr. Lyktir máls. Svarbréf UA styðst við a. lið 2. mgr. 10. gr. laga um UA, sbr.: „Hann getur látið mál niður falla að fenginni leiðréttingu eða skýringu stjórnvalds.” Þrátt fyrir að UA láti málið niður falla, felast í svarbréfi UA mikilvægar niðurstöður um efni kvörtunar AÍ.

Í fyrsta lagi telur UA leitt í ljós að ráðuneytið og MVS hafi bætt úr og leiðrétt skráningu v. eldri réttinda, sbr.:

Af skýringum umhverfisráðuneytisins verður ráðið a Mannvirkjastofnun hafi snúið af þeirri braut að synja arkitektum/hönnuðum með eldri réttindi um að fá nöfn sín skráð á listann. […] Þá er upplýst að stofnunin telur að standa hefði mátt betur að fyrirkomulagi og framsetningu listans og hefur verið úr því bætt, […] Auk þess muni Mannvirkjastofnun leitast við að leiðbeina frekar hönnuðum með eldri starfsréttindi um að þeir geti óskað eftir skráningu réttinda sinna á lista stofnunarinnar.

Hér ber að ítreka að MVS hefur bætt úr verklagi og birtingu vegna eldri réttinda á heimasíðu stofnunarinnar, í fullu samræmi við efni kvörtunar AÍ til UA.

Í öðru lagi fellst UA á þá málsástæðu AÍ að MVS hafi borið frumkvæðisskylda að halda utan um öll réttindi, þar með talin eldri réttindi, sbr.:

Þegar opinberri stofnun er fengið það verkefni að koma upp gagnasafni, sem a.m.k. að hluta byggist á upplýsingum sem fengnar eru úr stjórnsýsluframkvæmd, verður að gera ráð fyrir a stofnuninni beri að hafa ákveðið frumkvæði að því að afla þeirra upplýsinga sem kunna a vera til hjá öðrum opinberum aðilum sem komið hafa að eldri framkvæmd. […] Ég tel jafnframt að betur hefði farið á því ef Mannvirkjastofnun hefði, t.d. með tilkyningu til Arkitektafélags Íslands eða með birtingu auglýsingar, skorað á hönnuði með eldri réttindi að hafa frumkvæði að því að fá nöfn sín skráð á lista þann sem á að varðveita í gagnasafninu […] sérstaklega í ljósi tilgangs hans, […].

Í þriðja lagi fellst UA á þá málsástæðu AÍ að um hafi verið að ræða brot á meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (SL). Í 12. gr. SL er kveðið á um meðalhófsreglu þar sem segir að stjórnvald skuli aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Þá segir að gæta skuli að því að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. UA rökstyður niðurstöðu sína þannig, sbr.:

Hér þarf jafnframt að hafa í huga að þegar opinber aðili birtir lista yfir þá sem hafa tiltekin atvinnuréttindi getur birtingin haft áhrif á möguleika þeirra til að nýta þau réttindi sem þeir hafa aflað sér. […] Með hliðsjón af því að á stjórnvöldum hvílir lagaskylda til að varðveita lista yfir löggilta, sbr. 25. gr. laga um mannvirki, og ber því eins og að framan greinir að eiga visst frumkvæði að gagna- og upplýsingaöflun í því skyni bar að gæta þess að ganga ekki lengra en nauðsynlegt var til hægt væri að taka ákvörðun um hvort nafn hönnuðar yrði fært á listann þegar hann var sjálfur beðinn um að leggja fram gögn um atvinnuréttindi sín.         

Í niðurlagi kaflans segir UA hinsvegar að ekki væri betur séð en að gerðar hafi verið fremur vægar kröfur um sönnun á réttindum. UA gerir því ekki athugasemdir við stjórnsýsluframkvæmd MVS að því leyti.

Að lokum skal þess getið að UA hefur sent umhverfis- og auðlindaráðherra bréf dags. 28. febrúar s.l. vegna kvörtunar AÍ en þar er hnykkt á jafnræðisreglu SL, sbr:

[…] þrátt fyrir að ekki verði fullyrt að stjórnvöldum beri að eiga beint frumkvæði að því að safna með almennum hætti upplýsingum um eldri réttindi að þessu leyti, þá leiði það af þeirri lagaskyldu að halda til haga skrá um hönnuði, sbr. 25. gr. laga nr. 160/2010, og að þeim beri að gæta þess að ganga ekki lengra en nauðsyn ber til í því að leggja á aðila sjálfa að leggja fram gögn um starfsréttindi sín.

Í sama bréfi UA til umhverfis- og auðlindaráðherra segir UA að hann „telji rétt að leggja áherslu á það, í samræmi við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar og vandaða stjórnsýsluhætti, að gætt verði að því að framsetning á umræddum lista feli ekki í sér óréttmæta eða óþarfa mismunun.”

Í niðurlagi bréfs UA umhverfis- og auðlindaráðherra er að finna ábendingu UA til ráðuneytisins um mögulega lagabreytingu á mannvirkjalögum, sbr.:

„ Með hliðsjón af framangreindu beini ég því til ráðuneytis yðar að það íhugi hvort einhver ástæða sé til þess að lögum að tilgreina sérstaklega á hinum birta lista að um eldri réttindi sé a ræða, og beini þá eftir atvikum tilmælum til Mannvirkjastofnunar um það atriði.”  

Laganefnd AÍ telur að með svörum UA sé að tekið sé undir efni kvörtunar AÍ varðandi meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. nr. 37/1993.

Að þessu viðbættu telur laganefnd AÍ að ábending UA til umhverfis- og auðlindaráðuneytis um mögulega lagabreytingu á mannvirkjalögum sé viðurkenning á meginþáttum kvörtunarinnar, enda þótt það geti talist lagalegt túlkunaratriði hvort UA hafi borið að gefa út álit, skv. b. lið 2. mgr, 10. gr. laga um UA, frekar en að fella málið niður með vísan í a. lið 2. mgr. 10. laga um UA.

Laganefnd AÍ telur fullt tilefni með að óska félaginu og þeim félögum sem málið varðar til hamingju með niðurstöðuna enda verður ekki annað séð af bréfi UA en að umboðsmaður Alþingis hafi fallist á öll meginefni kvörtunarinnar og beint athugasemdum um betri stjórnsýslu til þeirra er málið varðar.

B.kv. Tryggvi Tryggvason form. laganefndar AÍ

Bréf umboðsmanns Alþingis