Teiknistofan Landslag ehf er tilnefnd til norrænna verðlauna í arkitektúr, Nordic Architecture Fair Awards 2017 fyrir tröppustíg á Saxhól í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli.  Verðlaunin verða svo veitt á ráðstefnu í Gautaborg þann 7. nóvember næstkomandi. Kallað var eftir verkefnum á sviði arkitektúrs, borgarskipulags, landslagsarkitektúrs og innanhússarkitektúrs.  Af 134 innsendum verkefnum eru einungis átta tilnefnd til verðlaunanna. Saxhóll er eina íslenska verkefnið sem tilnefnt er og jafnframt það eina tilnefnda á sviði landslagsarkitektúrs. Aðrar tilnefningar eru byggingar sem vakið hafa athygli fyrir framúrskarandi hönnun.  Hér er því mikil viðurkenning og hvatning til vandaðra vinnubragða á viðkomustöðum ferðamanna.

Saxhóll er vinsæll viðkomu- og útsýnisstaður í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Hóllinn er 45 metra hár keilulaga gígur með lausu og  lítt grónu gjalli í hlíðum. Með sívaxandi fjölda gesta hafði myndast ákveðið spor í spírallaga sneiðing upp hólinn og var tekið að skríða til og breikka.  Laust yfirborðið var jafnfram óþægilegt og hættulegt yfirferðar. Smíðaður var tröppustígur úr svörtu stáli sem ryðgaði flótlega og samlagaðist litbrigðum hólsins. Stígurinn er lagður eftir sárinu sem komið var í hólinn og er settur saman úr tveimur bogum sem mætast á hvíldarpalli á miðri leið. Stígurinn er 160 metra langur og 1,5 metra breiður sem nægir til fólk geti mæst. Hvor bogi er samsettur úr þriggja metra löngum beinum einingum. Hliðar stigans eru úr stífum stálplötum sem skorðast niður í gjallið. Einingar voru festar saman í eina samfellu og engra annarra undirstaða var þörf. Reynslan af tröppustígnum er sú að gestir halda sig alfarið á sporinu og hættan á myndun nýrra leiða virðist úr sögunni.

 Við óskum Landslagi innilega til hamingju með tilnefninguna.

Hér er hægt að lesa sér til um þau verk sem eru tilnefnd til verðlaunanna.