Verðlaunaafhending vegna hönnunarsamkeppni um Hjúkrunarheimili í Árborg fór fram í gær í sveitarfélaginu Árborg. Fyrstu verðlaun hlutu Urban arkitektar ehf. og LOOP architects aps. en í dómnefndaráliti segir:

Tillagan gerir ráð fyrir hringlaga húsi á tveimur hæðum. Aðkoma er úr suðri og um yfirbyggðan inngang, þaðan eru sjónræn tengsl um aflokað sameiginlegt garðrými. Ásýnd er lárétt, fáguð og látlaus. Hringnum er haganlega skipt upp í þrjú megin svæði. Á fyrstu hæð er aðkoma og þjónusturými ásamt tveimur heimiliseiningum og á annarri hæð eru þrjár heimiliseiningar. Heimiliseiningarnar tengjast um aðgengi að sameiginlegum útivistarsvæðum og lóðrétta samgönguása. Á 1. hæð er aðgengið út í garð en út á svalir á 2. hæð. Heildarskipulagið er skýrt og með björtum göngum. Hægt er að komast að hverri einingu án þess að fara um aðra þó svo að einn gangur tengi öll rými hvorrar hæðar. Höfundar loka af hverja álmu fyrir sig, tengja þau útivistarsvæðum og skapa þannig minni afmörkuð rými og heimilislegan brag. Sameiginleg svæði eru miðlæg og hægt er að samnýta svæði milli eininga. Útsýni er gott frá sameiginlegum rýmum. Einstaklingsrýmin eru vel leyst og hverfast um sameiginlegt rými yfir sveigðan ganginn. Þó þau tengist sameiginlega ganginum eru einingarnar aflokaðar og gengið er beint að borð- og setustofu í flestum tilfellum. Herbergin eru trapisulaga og opnast að úthlið hússins þar sem við tekur útsýni og er aðgengi að einkasvölum úr öllum herbergjum. Salerni snúa að rúmstæði og starfsaðstaða er góð. Innrétting sú er sýnd er á teikningum og þrívíddarmyndum telst ekki heppileg þegar horft er til eðlis íbúasamsetningarinnar, þó nútímaleg og skilvirk sé.

Önnur verðlaun hluti Andersen & Sigurdsson arkitektar og þriðju verðlaun hlutu Sei ehf. Sérstaka viðurkenniningu hlutu NORD architects/ARKITEÓ og AVH efh. Arkitektúr Verkfræði Hönnun.

Við óskum öllum verðlaunahöfum innilega til hamingju með árangurinn!

Dómnefndarálit-Hjúkrunarheimilið í Árborg