Kópavogsbær býður til kynningarfundar vegna úrslita í hugmyndasamkeppninni „Kársnes – Sustainable lifeline“, sem hleypt var af stokkunum í október sl. Samkeppnin var hluti af alþjóðlegu keppninni Nordic Built Cities Challenge en Kársnes í Kópavogi var eitt af sex þéttbýlissvæðum á Norðurlöndum sem valin voru til þátttöku.

Kynningin verður haldin í bæjarstjórnarsal Kópavogs, Fannborg 2, fimmtudaginn 16. júní og hefst kl. 8:00 með morgunkaffi. Þar verður vinningstillagan kynnt og aflétt þeirri nafnleynd sem verið hefur yfir höfundum fram til þessa. Fulltrúum fjölmiðla eru boðið að mæta ekki seinna en kl. 8:20 en kl. 8:25 tekur Birgir Hlynur Sigurðsson, skipulagsstjóri Kópavogsbæjar, til máls og kynnir tildrög keppninnar. Skipt verður yfir á streymi frá verðlaunaafhendingunni, sem fram fer í Helsinki, stundvíslega kl. 8:45, þegar tilkynnt verður um sigurvegara í samkeppninni um Kársnes. Hér heima verður þeim forsvarsmönnum tillögunnar, sem ekki eru í Helsinki til að taka á móti verðlaununum, ennfremur afhent viðurkenningarskjal.

Á kynningarfundinum verða til sýnis tillögurnar fjórar sem komust áfram á annað þrep keppninnar um Kársnesið, en alls bárust 19 tillögur. Meginmarkmið samkeppninnar var að efla nýsköpun og samkeppnishæfni Norðurlandanna á sviði sjálfbærni í byggðu umhverfi. Tillögurnar sem komust áfram voru eftirtaldar: Evolve Kársnes, Harbouring life, Sólborg, Spot on Kársnes sem allar eiga það sammerkt að vilja efla samfélagið á Kársnesi, nýta einstaka staðsetningu þess og mögulega tengingu við Vatnsmýrina í Reykjavík, styrkja útivistarsvæði og koma með umhverfisvænar lausnir í byggðar- og samgöngumálum. Nú stendur ein af tillögunum fjórum uppi sem vinningstillaga, sem verður kynnt á fundinum á fimmtudag.

Skipuð var dómnefnd í hverju landi. Íslensku dómnefndina skipuðu þau Guðný Björk Eydal, Hrafnkell Proppé, Karl Benediktsson, Þór Sigfússon og Þóra Kjarval.

Streymi frá viðburðinum í Helsinki hefst kl. 8:00 á slóðinni http://livestream.com/Infocrea-fi/nordic-built-cities-challenge en gert er ráð fyrir að verðlaunin fyrir sigurtillöguna um Kársnesið verði afhent kl. 8:45.

nordic-built-cities_logo