Úrslit í hugmyndasamkeppni um aukna og bætta íþrótta- og baðaðstöðu við Sundhöll Ísafjarðar hefur verið kynnt og eru höfundar vinningstillögunnar Kanon arkitektar. 

 

 

Í niðurstöðu dómnefndar kom fram:

Tillagan ber af öðrum innsendum tillögum, heildaryfirbragð er gott, hún er vel útfærð og nýtur þess að höfundar hafa næma tilfinningu fyrir starfseminni og gott innsæi í þarfir notenda.

Heildarskipulag er aðlaðandi fyrir alla notendur, bæði sundlaugargesti, íþróttaiðkendur, áhorfendur og starfsfólk. Einstöku rýmum er haganlega komið fyrir og tengingar milli þeirra eru vel leystar. Aðgengi hreyfihamlaðra um bygginguna er til fyrirmyndar. Ný og rúmgóð lyfta tengir saman allar hæðir hússins, allt frá inngangi upp í ris. Staðsetning stiga helst óbreytt en tillagan gerir ráð fyrir að um hann verði myndað lokað stigahús sem bætir brunavarnir að verulegu leyti. Á aðalhæð sem m.a. rúmar búningsklefa er greiður aðgangur að öllum rýmum og baðsvæðum. Þá hefur höfundum tekist sérstaklega vel að skapa heildstæðar tengingar milli byggingarinnar og útisvæðisins. Laugargæsla er skynsamlega staðsett á mörkum útisvæðis og sundlaugarrýmis þannig að vaktmaður hefur góða yfirsýn og kemst greiðlega milli svæða.

Áhersla er lögð á fyrstu upplifun gesta þar sem opnað er strax frá anddyri inn í sjálft sundlaugarrýmið með glerveggjum og tilheyrandi dagsbirtuflæði. Þannig skynja gestir strax að þeir séu nú staddir í sundlaug. Þetta hefur óneitanlega mikla kosti en hin sterka samhverfa hússins brotnar upp með þessu móti því gestir þurfa að taka stóran sveig á leið sinni úr anddyri að búningsklefum. Það gæti skapað þrengsli á álagstímum. Dómnefnd veltir því fyrir sér hvort hægt væri að endurhugsa fyrirkomulag anddyris og móttöku til að rýmka fyrir umferð gesta en án þess þó að skerða upplifunina sem skapast við að opna inn í sundlaugarrýmið.

Útisvæði er skemmtilega afmarkað með ógagnsæjum glerveggjum sem hindra innsýn frá nágrannalóðum en sleppir birtu í gegn. Heitum pottum, gufubaði og vatnsrennibraut er haganlega komið fyrir þannig að gott jafnvægi myndast milli hvíldar og leiks. Staðsetning sólbaðs- og baðaðstöðu miðast við að fanga sól sem kostur er á mismunandi tímum dags. Sérstök sólbaðsverönd á vesturhlið byggingarinnar með sjónræn tengsl við Austurvöll er að mati dómnefndar mjög góð viðbót við fjölbreytta afþreyingarmöguleika. Gönguleið milli útisvæðis og nágrannalóða ver þær skuggamyndun frá upphækkuðu útisvæðinu.

Tillöguhöfundar hafa lagt upp með að nálgast bygginguna af virðingu og samtímis að laga hana að breyttum aðstæðum á nútímalegan og hagkvæman hátt. Einnig er lögð áherslu á að undirstrika og upphefja kosti og sérkenni byggingarinnar. Að mestu leyti hefur þetta tekist vel, sérstaklega hvað varðar breytingar á fyrirkomulagi. Þótt viðbygging á bakhlið sé nútímaleg og þ.a.l. í öðrum stíl en sú eldri er léttleiki hennar sannfærandi og myndar gott mótvægi við þyngra yfirbragð sundhallarinnar. Dómnefnd telur að viðbótargluggar á framhlið byggingarinnar svo og hurð á suðvesturhorni sundlaugarrýmsins sé óþarfa inngrip þar sem það stingur mjög í stúf við útlitslega reglufesti. Breytingar á innra fyrirkomulagi svo og viðbyggingum eru hóflegar og hagkvæmar. Framsetning tillögunnar er falleg og sérstaklega skýr.

 

(Birt á vef 2. febrúar 2017)