Nú er unnið hörðum höndum að nýjum vef Hönnunarmiðstöðvar og HA sem áætlað er að fari í loftið á næstunni. Vefnum er ætlað að vera leiðandi miðill í umfjöllun um hönnun og arkitektúr og upplýsandi fyrir jafnt fagfólk sem almenning. Efnistök vefsins munu veita heildræna sýn á íslenskt hönnunarsamfélag með öflugri frétta- og upplýsingaveitu í bland við ítarlegra efni, greinar og viðtöl. Af þessu tilefni óskum við eftir efni!

Innsent efni getur til dæmis verið grein (skoðun, fræði eða fróðleikur), fréttir af nýju verki / verkefni / rannsókn / sýningu / samstarfi, myndaþættir, teikningar, og hvað sem fólk innan hönnunargeirans er að fást við og langar að koma á framfæri.

Innsent efni berist til: midlar@honnunarmidstod.is

Best er að senda eitt verkefni í hverjum tölvupósti til að auðvelda úrvinnslu okkar megin. Það sem þarf að fylgja er eftirfarandi (ath. allir textar mega vera á íslensku og/eða ensku) :

  • Nafn og ártal verkefnis.
  • Nöfn og starfsheiti stofu / stúdíós / hönnuða / annarra sem komu að verkinu.
  • Stuttur texti / lýsing (og lengri, ef það á við).
  • Ljósmyndir í vef- og prentgæðum (a.m.k. 3-5 stk.). Gott er að senda hlekki á myndamöppur, t.d. google drive eða dropbox þar sem úrvinnsla efnis getur tekið tíma okkar megin.
  • Vefslóð(ir) og samfélagsmiðlaslóðir, ef það á við.
  • Hvort verkefnið hafi fengið birtingu áður. Ef svo er, þá hvar og hvenær.

Ekki hika við að hafa samband í gegnum ofangreint netfang ef það vakna einhverjar spurningar og eins ef þið hafið ábendingar um önnur áhugaverð verkefni sem tengjast íslenskri hönnunarsenu með einum eða öðrum hætti.

Það er von okkar að inn í pósthólfið verði stöðugt streymi af fréttum og áhugaverðu efni úr öllum áttum og við treystum á gott samstarf við fagfélögin og félagsmenn þeirra til að halda okkur upplýstum um það helsta sem er að frétta í hverju fagi.

Með von um góðar móttökur,                                                                                                                                      María Kristín ritstjóri HA og Álfrún kynningarstjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands.