Alþjóðlegur dagur arkitektúrs er haldinn fyrsta mánudag í október ár hvert. Markmiðið með deginum er að taka tíma frá og vekja athygli á arkitektúr, hvort sem það er innan fagsins, fyrir fagaðila í byggingariðnaði, fyrir stjórnvöld eða fyrir almenning. Í ár, á 70 ára afmæli dagsins, er markmið okkar að taka tíma frá og vekja athygli fólksins í landinu á sínu nærumhverfi. Hugmyndin er sótt til Finnlands en finnska arkitektafélagið, SAFA, hefur síðastliðin ár boðið upp á göngur um götur/staði í Finnlandi. Þá hafa félagsmenn, hvort sem þeir eru einir eða í pörum, tekið sig saman og gengið um sína uppáhaldsgötu/staði í þeirri borg/þeim bæ sem þeir kjósa.

Í ár, langar Arkitektafélagið að fara að fordæmi Finna og bjóða landsmönnum öllum upp á göngur um þeirra nærumhverfi. Göngurnar eru hugsaðar fyrir unga sem aldna og geta átt sér stað hvar sem er á landinu.

Hvernig förum við að?

Til að þetta geti átt sér stað þurfum við þátttöku okkar félagsmanna. Hvort sem þið kjósið að vera ein, í pörum eða í tríói, þá hvetjum við ykkur til að kynna fyrir landsmenn ykkar uppáhaldsgötu/stað þann 1.október.  Sendið póst á ai@ai.is og látið okkur vita hvar þið viljið leiða göngu. Gott væri ef öll skráning væri komin inn á borð til okkar sunnudaginn 16. september. Við munum síðan bjóða öllum þeim sem taka þátt á stuttan kynningarfund þar sem við myndum kynna verkefnið betur fyrir ykkur, hvaða götur verða teknar fyrir og hvaða punkta væri gott að hafa bak við eyrað á kynningum sem þessum.

Hvar og hvenær?

Alþjóðlegur dagur arkitektúrs verður haldinn hátíðlega um heim allan mánudaginn 1. október. Göngurnar fara fram þann daginn á milli kl. 17:30-18:30. Klukkan 20:00-21:00 munum við síðan eiga góða stund saman og fagna Alþjóðlegum degi arkitektúrs með léttum veitingum.

Hvernig kynnt? 

Til að þetta heppnist sem best verður að kynna þetta vel. Arkitektafélagið mun sjá til þess að kynna þennan dag vel á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum og eins þyrftum við ykkar stuðning til að kynna þetta vel á samfélagsmiðlum.

Ef einhverjar spurningar vakna, þá ekki hika við að hafa samband með því að senda póst á netfangið ai@ai.is eða með því að hringja í síma: 7802228 (skrifstofan er opin milli kl. 9:00-13:00).